Sveitarfélagið Norðurþing varð til árið 2006 við sameiningu fjögurra sveitarfélaga: Húsavíkurbæjar, Kelduneshrepps, Öxarfjarðarhrepps og Raufarhafnarhrepps. Nær það yfir rúmlega 4% landsins, frá Reykjahverfi í Suður Þingeyjarsýslu að Ormarsá austan við Raufarhöfn og upp fyrir Grímsstaði á Fjöllum, í Norður Þingeyjarsýslu. Þéttbýliskjarnarnir í sveitarfélaginu eru Húsavík, Kópasker og Raufarhöfn. Í ársbyrjun 2012 voru íbúar Norðurþings 2883 talsins.
Menning, mannlíf, listsköpun og saga einkennir Norðurþing. Talið er að sænski landkönnuðurinn Garðar Svavarsson, sem uppgötvaði fyrstur manna að Ísland væri eyja, hafi haft vetursetu á Húsavík fjórum árum áður en Ingólfur Arnarson nam landið.
Margar af helstu náttúruperlum Íslands eru innan Norðurþings. Fyrst ber að nefna Þjóðgarðinn í Jökulsárgljúfrum, með sína stórbrotnu náttúru. Selfoss, Dettifoss, Hafragilsfoss og Réttarfoss mynda einstæða fossakeðju sem á fáa sína líka í veröldinni, en þar eru einnig Hljóðaklettar og Ásbyrgi. Að auki má nefna Æðafossa í Laxá, Grettisbæli í Öxarnúpi auk Melrakkasléttu sem er ævintýri líkast að heimsækja, enda náttúra hennar margbrotin.
Fuglalíf er mjög fjölskrúðugt og fjöldi fuglaskoðunarstaða, t.d. í Kelduhverfi, Kotatjörn við Kópasker og á Rauðanúp á Melrakkasléttu, en þar er nyrsta súlubyggð á landinu auk þess sem hér er einn örfárra aðgengilegra varpstaða hennar.
Söfn í Norðurþingi er mjög fjölbreytt, en þar eru m.a. byggðasöfn, hvalasafn og jarðskjálftasýning.
Þrjár upplýsingamiðstöðvar eru í Norðurþingi, á Húsavík, í Gljúfrastofu og á Raufarhöfn, en að auki er hægt að nálgast upplýsingar hjá flestum ferðaþjónustuaðilum.
Tekið af vef Norðurþings http://www.nordurthing.is/is/um-nordurthing