Þingeyjarsveit

Sveitarfélagið Þingeyjarsveit varð upphaflega til við sameiningu fjögurra hreppa: Hálshrepps, Ljósavatnshrepps, Bárðdælahrepps og Reykdælahrepps. Sameiningarkosningar fóru fram 3. nóvember, 2001 og ný sveitarstjórn tók við 9. júní, 2002 eftir sveitarstjórnarkosningar 25. maí.

Í júní 2008 sameinuðust Aðaldælahreppur og Þingeyjarsveit og eru íbúar í Þingeyjarsveit í dag 945 talsins.

 

 

 

Í sveitarfélaginu er gróskumikið mannlíf enda atvinnuvegir fjölþættir, s.s. landbúnaður, fræðsla, fiskvinnsla, skógrækt, ferðaþjónusta, matvælaframleiðsla og margt fleira.  Þrír grunn- og leikskólar eru í sveitarfélaginu; Stórutjarnaskóli  Litlulaugaskóli, og Hafralækjarskóli. Framhaldsskólinn á Laugum og tónlistarskóli í Reykjadal auk tónlistardeildar við Stórutjarnaskóla og Hafralækjarskóla

Leiklistarstarf og söngur eru í miklum blóma, t.d. á Breiðumýri og í Söngfélaginu Sálubót og Karlakórnum Hreim.  Íþróttalíf er kröftugt hjá ungmennafélögum á svæðinu; Bjarma, Einingunni, Eflingu, Geisla og  Gamni og alvöru. Mjög góð aðstaða til íþróttaiðkanna er sérstaklega á Laugum og svo víðar.

Sveitarfélagið byggir á gömlum merg en um það leika ferskir vindar framfara og sóknar enda býr sveitarfélagið að mikilli auðlegð í mannauði, náttúruauðlindum, t.d. á Þeistareykjum, í Skjálfandafljóti og hugsanlega víðar og sóknarfærum á sviði ferðamála. Hér eru dýrmætar perlur eins og Goðafoss og Vaglaskógur og Skjálfandafljótið fossar gegnum sveitarfélagið og endurómar sterkum rómi þann mikla kraft sem virkja má í fólki, fossum, fjöllum og fögrum dölum Þingeyjarsveitar.

 Tekið af vef Þingeyjarsveitar http://thingeyjarsveit.is/thingeyjarsveit/